Fyrr í haust fengu nemendur 7. bekkjar starfsmann frá félagsmiðstöðinni Tróju í heimsókn. Hann kynnti þeim starfsemina og bauð nemendur 7. bekkjar sérstaklega velkomna í félagsmiðstöðina á miðvikudögum. Með það fyrir augum að fræðast nánar um starfsemina í félagsmiðstöðinni þá skelltu nemendur sér í heimsókn í dag. Vel var tekið á móti nemendum og skemmtu þeir sér vel. Margir töluðu um að vera duglegir að mæta á opið hús framvegis. Hægt er að skoða myndir frá heimsókninni á myndasíðu skólans.
Category Archives: Fréttir og tilkynningar
Jafnréttisáætlun Oddeyrarskóla – framkvæmdaráætlun skólaársins
Oddeyrarskóli hefur á síðustu árum unnið eftir nýrri jafnréttisáætlun skólans. Einnig gerir skólinn á hverju ári framkvæmdaráætlun skólaársins og er hún vistuð undir jafnréttisáætluninni undir flipanum „starfshættir“. Hana má einnig sjá hér.
BINGÓ – BINGÓ
Í dag, fimmtudaginn 21. nóvember standa nemendur í 10. bekk fyrir Bingói í íþróttasal skólans.
Bingóið hefst kl. 18:00. Spjaldið kostar 500 krónur og eru vinningar ekki af verri endanum.
Nemendur munu selja pylsur og gos á 300 krónur í hléinu.
Allur ágóði rennur í ferðasjóð 10. bekkjar en stefnt er að því að fara í ógleymanlega útskriftarferð í skólalok 🙂
Heimsókn í fimleikahúsið
Í gær fór 2. bekkur með kennurum í heimsókn í fimleikahúsið við Giljaskóla.
Fimleikafélagið bauð nemendum 2. bekkjar í þessa heimsókn til að kynnast húsinu og aðstöðunni þar. Heimsóknin var afar vel heppnuð og börnin til fyrirmyndar.
Hægt er að skoða myndir á myndasíðu skólans.
Ella umferðartröll
Í dag fengu nemendur í 1. og 2. bekk að horfa á leiksýninguna Emmu umferðartröll. Leikarar voru þrír og byggist sýningin á fræðslu á umferðarreglum.
Leiksýningin var vel heppnuð og nemendur voru sjálfum sér og skólanum til sóma. Þeir fengu endurskinsmerki að gjöf og var um leið bent á heimasíðu sýningarinnar emmaumferdartoll.is sem hefur m.a. að geyma myndir af persónunum sem hægt er að prenta úr og lita.
Myndir frá sýningunni eru á myndasíðu skólans.
Dagur íslenskrar tungu – fréttir af unglingastigi
Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur á unglingastiginu í dag.
Nemendur í 8. bekk fóru í Brekkuskóla og nemendur í 9. bekk fóru í Síðuskóla, þar sem þeir héldu ræður um hin ýmsu málefni. Það er skemmst frá því að segja að kennarar voru hæstánægðir með sitt fólk. Það stóð sig með mikilli prýði.
Nemendur í 10. bekk fóru upp í háskóla þar sem haldin var hátíðardagskrá í boði Íslenskrar málnefndar og Mjólkursamsölunnar. Ari Eldjárn var kynnir auk þess sem hann skemmti gestum á sinn einstaka hátt. Einnig fluttu menntamálaráðherra og fulltrúi mjólkursamsölunnar ávarp. Framlag nemenda úr 10. bekk grunnskólanna á Akureyri var mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Nemendur úr 10. bekk Oddeyrarskóla voru sér og sínum til mikils sóma.
Menntamálaráðherra í heimsókn í tilefni af degi íslenskrar tungu
Í dag, föstdaginn 15. nóvember fengum við góða gesti hingað í skólann.
Menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson og tveir starfsmenn Menntamálaráðuneytisins komu til okkar ásamt fræðslustjóra og formanni skólanefndar Akureyrarbæjar og kynntu sér íslenskukennslu í 1.-4. bekk. Þau fengu kynningu á því hvernig unnið er í byrjendalæsi í Oddeyrarskóla og einnig sáu þau nemendur 4. bekkjar vinna íslenskuverkefni í anda aðferðarinnar „leikur að læra“. Að loknum heimsóknum í bekk spjallaði Illugi við nokkra kennara og stjórnendur skólans.
Einnig heimsótti rithöfundurinn Dagbjört Ásgeirsdóttir nemendur í 1. – 4. bekk og las úr bók sinni Gummi og dvergurinn úrilli fyrir nemendur og höfðu nemendur virkilega gaman af.
Myndir frá heimsóknunum má sjá á myndasíðu skólans, tengill hér til vinstri.
Ferðaskrifstofur 7. bekkjar
Undanfarnar þrjár vikur hafa nemendur í 7. bekk unnið að ferðaskrifstofuverkefni í samfélagsfræði. Verkefnið var unnið í samvinnu við Særúnu kennaranema. Nemendur völdu sér land í Evrópu og unnu verkefni í tengslum við það. Lokaafurðin var ferðaskrifstofusýning þar sem foreldrum var boðið að koma og sjá afraksturinn. Nemendur buðu upp á ýmsar kræsingar sem tengdust löndunum sem þeir fjölluðu um.
Í boði voru draumaástir til Frakklands, æðiferð til Eistlands, skemmtiferð til Danmerkur, matarferð til Ítalíu og brúðkaupsferð til Grikklands. Fleiri myndir frá sýningunni má sjá á myndasíðu skólans (hlekkur hér til vinstri).
Tengja nóvembermánaðar
Ný tengja er komin í loftið en í henni má sjá ýmsar fréttir úr skólalífinu. Tengju nóvembermánaðar og eldri Tengjur má finna undir tenglinum Tengja.
Frammistöðumat í Mentor og viðtalsdagar
Minnum nemendur og foreldra á að fylla út frammistöðumat í Mentor fyrir mánudaginn 18. nóvember. Viðtalsdagar verða miðvikudaginn 20. nóvember og fimmtudaginn 21. nóvember.
Nemendur í 6. bekk verða með vöfflur og kaffi/djús til sölu í matsal skólans en ágóðinn fer í Reykjaferð á næsta skólaári.