Þrumugleði í fimleikahúsi

Um miðjan nóvember voru nemendur í 10. bekk búnir að safna sér fyrir þrumugleði, sem fæst þegar búið er að ná að safna þrumum sem nemur sexföldum fjölda nemenda í bekknum. Þrumur eru hrósmiðar og eru hluti af SMT skólafærni. Nemendur komu með hugmyndir um hvað væri gaman að gera saman og kusu það sem þeim leyst best á. Ákveðið var að fara í fimleikasalinn í Giljaskóla og sprella saman auk þess sem þau fengu að hafa frjálst nesti með sér.

Ferðin heppnaðist vel, allir fóru í einhverja hreyfingu og höfðu varla tíma til að taka hádegishlé svo gaman var hjá þeim.

Góð gjöf frá útskriftarnemum vorið 2023

Nemendur sem útskrifðust úr 10. bekk síðastliðið vor gáfu skólanum veglega gjöf á þeim tímamótum. Þetta var peningagjöf með þeim tilmælum að keyptur yrði þrívíddarprentari. Haustið var notað til að skoða og velta fyrir sér hvað heppilegast væri að gera. Fyrir valinu varð prentari sem pantaður var að utan en hann hefur þá kosti að vera einfaldur og notendavænn. Tölvuumsjónarmaður er um þessar mundir að prófa sig áfram og kynnast hugbúnaði og tæki. Þá fóru nokkrir kennarar á námskeið í Fablab í haust og fengu þjálfun í vinna með hugbúnað og prenta út á öðruvísi efni en pappír. Þegar starfsfólk hefur öðlast öryggi í að umgangast prentarann munu einhverjir nemendahópar fá að spreyta sig.

Sögur, verkefni í 5. bekk

Um þessar mundir er verið að vinna verkefni í íslensku í 5. bekk sem kallast sögusmiðja. Krakkarnir mega semja smásögu, stuttmyndahandrit, leikrit eða lag og lagatexta og vinna sína hugmynd frá grunni. Markmiðið er síðan að þeir nemendur sem vilja sendi verk sitt í samkeppni á vegum Krakkarúv sem heitir Sögur. Hér er linkur inn á vef þeirra fyrir þá sem vilja kynna sér þetta frábæra framtak Ríkissjónvarpsins.  Það verður síðan uppskeruhátíð hér í skólanum þar sem við munum bjóða foreldrum að koma og sjá verk nemenda.

Foreldrafræðsla 21.nóvember kl. 16:30-17:30 í íþróttasal.

Þriðjudaginn 21. nóvember mun Skúli Bragi Geirdal flytja erindi fyrir foreldra Oddeyrarskóla. Umfjöllunarefni er m.a. svefn og geðheilsa, samskipti og samfélagsmiðlanotkun.  Nemendur mið – og unglingastigs og starfsfólk skólans fá sambærilega fræðslu þennan sama dag.  Fræðslan er liður í velferðarverkefni Oddeyrarskóla. Við óskum eftir að allir nemendur eigi fulltrúa á fundinum, annað hvort foreldri eða annan fullorðinn nákominn sem getur miðlað til foreldra.

Dagur læsis

Á degi læsis í september síðastliðinn, unnu nemendur hugtakakort um læsi og skrifuðu niður orð og/eða setningar um hvað læsi er í þeirra huga. 

Margt mjög skemmtilegt kom út úr þessari vinnu, sem hefur nú verið sett upp í tré og sett upp inni á bókasafni, eins og sjá má á þessum myndum.

Læsisteymi Oddeyrarskóla

Heimsókn í Oddeyrarskóla

Í þematíma á dögunum fékk unglingastig heimsókn frá bræðrunum Hákoni og Hafþóri, en þeir útskrifuðust úr Oddeyrarskóla árið 2016. Þeir ræddu námið, félagslífið og tímann sinn hér í Oddeyrarskóla. Nemendur voru einstaklega áhugasamir og spurðu margra áhugaverðra spurninga. Flottar fyrirmyndir þarna á ferð!

Uppskera í Oddeyrarskóla

Síðasta vor setti þáverandi 1. bekkur niður kartöflur og sáði fyrir gulrótum og salati eftir umræður um sjálfbærni. Nú var komið að því að uppskera og það fléttast svona rosalega vel saman við Byrjendalæsis bókina sem verið er að vinna með í  1. og 2. bekk – bókina Blómin á þakinu. Hún fjallar um Gunnjónu sem flytur úr sveit í borg og saknar sveitalífsins mikið og matjurtargarðsins síns. 

Þau fóru í hópum og tóku upp kartöflur og nokkrar gulrætur sem Marta matráður fær svo til þess að matbúa handa þeim. Krökkunum fannst þetta bæði merkilegt og gaman.

Farsæld barna

Kæru foreldrar / forráðamenn leik- og grunnskólanemenda á Akureyri

Eins og mörgum er kunnugt, þá stendur yfir innleiðing laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, sem í daglegu tali eru kölluð farsældarlögin. Nú er kominn nýr og aðgengilegur vefur sem kallast Farsæld barna og þar má finna nánari upplýsingar um hvað löggjöfin felur í sér og hvert hlutverk tengiliða er. Einnig má sjá aðgengilegt myndband sem lýsir í stuttu máli því sem lögin innibera.

Samkvæmt lögunum eiga börn og foreldrar að hafa greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og að þau fái rétta aðstoð á réttum tíma, frá réttum aðilum. Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi. 

Börn og foreldrar þeirra hafa aðgang að tengilið í skóla. Á heimasíðu skólans, https://oddeyrarskoli.is/tengilidir/ , má sjá hverjir hafa hlutverk sem tengiliðir í Oddeyrarsóla. Hlutverk tengiliðar er fyrst og fremst að veita upplýsingar, aðstoða foreldra og barn og styðja við samþættingu á fyrsta stigi í samræmi við óskir foreldra og/eða barns. Í flóknari málum hafa börn og foreldrar aðgang að málstjóra hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar eða þar sem þarfir barns liggja hverju sinni. Foreldrar og börn geta leitað sjálf beint til tengiliðar eða sent beiðni í gegnum Þjónustugátt Akureyrarbæjar.

Með góðri farsældarkveðju,

Helga Vilhjálmsdóttir, innleiðingarstjóri farsældarlaga á fræðslu- og lýðheilsusviði

Kristín Jóhannesdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs

Anna Bergrós Arnarsdóttir, skólastjóri Oddeyrarskóla

Bækur að gjöf frá foreldrafélagi

Bókasafni skólans barst á dögunum vegleg bókagjöf frá foreldrafélaginu. Fulltrúi foreldrafélagsins fór ásamt skólasafnskennara á bókamarkaðinn sem nú stendur yfir hér fyrir norðan, og fundu talsvert af bókum sem vantaði á safnið sem og vinsælum bókum sem gott er að eiga í fleiri en einu eintaki. 

Skólinn þakkar foreldrafélaginu kærlega fyrir þessa rausnarlegu gjöf.