Tilkynning frá Fræðslu-og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar

Ágætu foreldrar og forráðamenn.

Tekin hefur verið ákvörðun að um næstu áramót bjóðist eftirfarandi foreldrahópum afsláttur í frístund, einstæðum foreldrum, námsmönnum þar sem báðir foreldrar eru í fullu námi, öryrkjum þar sem báðir foreldrar eru 75% öryrkjar og atvinnulausum foreldrum. Jafnframt gildir afslátturinn þar sem annað foreldrið er t.d. í fullu námi og hitt atvinnulaust eða 75% öryrki.

Til að njóta afsláttar:

  • Þurfa námsmenn að framvísa skólavottorðum í byrjun hverrar annar.
    •  Í vottorði frá skóla þarf að koma fram að um fullt nám sé að ræða og það varir í að minnsta kosti í eitt ár.
    •  Í lok annar þarf að skila staðfestingu um námsframvindu.  
  • Þurf atvinnulausir foreldrar, að sækja um mánaðarlega og skila vottorði um stöðu sína frá Vinnumálastofnum fyrir 20. hvers mánaðar.
  • Þurfa foreldar að vera skráðir 75% öryrkjar.
  • Þurfa einstæðir foreldrar að skila inn vottorði frá sýslumanni um hjúskaparstöðu

Sótt er um afslátt í Völu– frístund kerfinu. Eftirfarandi staðfestingar þurfa að berast í viðhengi með umsókn. Lægra gjald tekur gildi 1. dag næsta mánaðar eftir að umsókn og gögn berast.

  • vottorðum frá skólum,
  • vottorð frá Vinnumálastofnun   
  • staðfesting um hjúskaparstöðu frá sýslumanni 
  • mynd af örorkuskírteini.

Fræðslu-og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar

Síðdegisopnun á bókasafni og fatamarkaður

Fimmtudaginn 24. nóvember var bókasafnið opið síðdegis, frá 16:30 -18:00, fyrir nemendur, foreldra og aðra gesti sem áhuga höfðu á að kíkja í heimsókn.

Boðið var upp á kaffi, kleinur og kókómjólk. 

Á sama tíma var fatamarkaður, þar sem fólk gat komið og fengið sér föt og annað sem kom úr geymslum og skápum starfsmanna og foreldra, sem og skoðað þau föt sem skilin hafa verið eftir hér í skólanum undanfarið. 

Mæting var allgóð. Um 30 manns kíktu inn á bókasafnið. Sumir gerðu stuttan stans, öðrum dvaldist lengur við að skoða bækur með börnum sínum eða spila við þau.

Baráttudagur gegn einelti er í dag

Í tilefni baráttudags gegn einelti, 8. nóvember, fengu nemendur 1. bekkjar og nýir nemendur í 2. bekk, afhentar húfur sem á stendur „Gegn einelti“. Þetta er í sjöunda sinn sem við í Oddeyrarskóla gerum þetta en starfsmenn og velunnarar skólanns prjónuðu húfurnar. Húfurnar eru merktar hverju barni og hver þeirra er með sína liti og eru þær fjölbreytilegar í útliti eins og nemendahópurinn.

Gjöf frá foreldrafélaginu

Foreldrafélag Oddeyrarskóla gaf skólanum á dögunum afar veglega gjöf sem á svo sannarlega eftir að nýtast nemendum vel.  Um er að ræða fjöldan allan af spilum fyrir bæði unga og aldna og færum við foreldrafélaginu okkar bestu þakkir fyrir þessa einstaklega flottu gjöf.

Stúlkur í 5. bekk tóku á móti spilunum fyrir hönd nemenda.

Bleikur dagur

Október er mánuður Bleiku slaufunnar, árvekni- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum hjá konum. Krabbameinsfélag Íslands biður alla landsmenn um að klæðast einhverju bleiku föstudaginn 14. október eða hafa bleikan lit í fyrirrúmi þann dag. Með því sýnum við samstöðu í baráttunni. Okkur langar því að hvetja nemendur og starfsfólk Oddeyrarskóla til að koma í einhverju bleiku í skólann á morgun, föstudaginn 14. október.

Skólasetning 22. ágúst 2022

Oddeyrarskóli verður settur mánudaginn 22. ágúst 2022. Nemendur mæta á sal og fara síðan með umsjónarkennurum í heimastofur. Foreldrar eru velkomnir með á skólasetningu. Foreldrar nemenda í 1. bekk fá upplýsingar um skólabyrjun frá kennara og deildarstjóra.

Klukkan 9:00 nemendur í 2. – 5. bekk

Klukkan 9:30 nemendur í 6. – 10. bekk

Framkvæmdir á skólalóð

Í sumar hafa verið miklar framkvæmdir á skólalóðinni og þeim er ekki lokið. Vakin er athygli á því að hætta getur skapast ef börn eru að leik á vinnusvæðinu þar sem umferð stórra tækja er mikil. Það er einnig verið að skipta um gler í öllum gluggum á suðausturhlið svo þarna eru margir að störfum á litlu svæði. Vakin er athygli á því að börn hafa verið að fara inn á svæðið þar sem verið er að setja upp leiktæki, sérstaklega á kvöldin þegar starfsmenn eru farnir af svæðinu. Það er stórhættulegt að klifra í tækjunum sem ekki eru uppsett að fullu. Fallhætta er mikil og það er t.d. ekki búið að festa rörin í rennibrautinni saman. Foreldrar eru vinsamlegast beðnir um að ræða það við börn sín að fara ekki inn á vinnusvæðið heldur bíða þar til það verður tilbúið.