Göngum í skólann

Oddeyrarskóli er heilsueflandi grunnskóli og við tökum þátt í þeim átaksverkefnum á landsvísu sem henta í skólastarfi. Göngum í skólann er eitt af þeim verkefnum og hefst á morgun. Við hvetjum alla, starfsmenn og nemendur til að ganga eða hjóla í skólann í stað þess að koma á einkabíl. Kennarar halda utan um skráningar en það er keppni um að fá sem flesta til að vera með. Af þessu tilefni munu allir nemendur og starfsmenn fá að gjöf endurskinsmerki sem við hvetjum foreldra til að hengja strax á yfirhafnir barnanna.

Heimsóknir umsjónarkennara í 8. bekk

Venja hefur verið hér í Oddeyrarskóla að umsjónarkennari 8. bekkjar heimsæki verðandi nemendur sína og foreldra/forráðamenn þeirra að hausti og hefur umsjónarkennari 8. bekkjar lokið við þær heimsóknir í ár. Tilgangur heimsóknanna er að efla tengsl heimilis og skóla með því að kynnast nemendum og foreldrum/forráðamönnum í öruggu umhverfi nemenda og fjölskyldna. Í heimsóknunum gefst tækifæri til að ræða skólann, námið, áhugamál, líðan,  hversdagsleikann og allt þar á milli. Heimsóknirnar voru í upphafi hluti af þróunarverkefni sem skólinn tók þátt í um aukið samstarf heimila og skóla. Kannanir sem gerðar hafa verið á reynslu foreldra/forráðamanna og nemenda af heimsóknunum hafa sýnt að almenn ánægja hefur verið með þetta fyrirkomulag og niðurstöður því hvatt okkur til að halda heimsóknunum áfram. 

Óskilamunir í Oddeyrarskóla

Hér hefur safnast upp heilmikið af óskilamunum – við erum búin að setja upp borð við báða innganga með óskilamunum frá síðasta vori. Þetta mun vera uppi eitthvað í vikunni en svo munum við koma því fyrir á betri stað. Endilega kíkið á þetta ef þið saknið einhvers.

Skólasetning

Oddeyrarskóli verður settur þriðjudaginn 22. ágúst klukkan 9:00 á sal skólans. Nemendur í 2. – 10. bekk mæta á setningu en nemendur og foreldrar í 1. bekk fá boð um viðtal við umsjónarkennara annað hvort 22. eða 23. ágúst. Frístund er opin á skólasetningardaginn en skrá þarf þann dag sérstaklega.

Styrkur úr Sprotasjóði

Á vordögum fékk Oddeyrarskóli upplýsingar um veglega styrkveitingu úr Sprotasjóði til að fylgja eftir verkefni næsta skólaár sem við köllum „Bætt líðan – aukin fræðsla“. Verkefnið snýst um að auka fræðslu til nemenda, starfsfólks og foreldra með það að markmiði að efla geðheilbrigði. Nemendur fá fræðslu í formi ART kennslu fyrir tvo árganga sem taka 12 vikna námskeið til að efla félagsfærni, reiðistjórnun og eflingu siðgæðisþroska. Þá munu þeir árgangar sem ekki fá ART fá styttri fræðslu um valda þætti er snúa að geðrækt og líðan og verður sniðin að aldri og þroska en gæti t.d. snúist um símanotkun, svefn eða kvíða.

Starfsmenn fá einnig fræðslu sem snýr að geðheilsu barna og foreldrar í völdum árgöngum fá sérstaka fræðslu um þætti er snúa að farsæld barna. Þá er liður í verkefninu að auka samstarf og samverustundir við alla foreldra skólans og endurvekja bekkjarkvöld eða seinniparts samveru einu sinni á skólaárinu hjá öllum nemendum og foreldrum.

Við ætlum að breyta rými inn af bókasafni þar sem áður var tölvuver og síðustu tvö ár sérkennsluaðstaða en þar er hugmyndin að hafa aðstöðu þar sem nemendur geta unnið í ró og næði ef þeir þurfa að að hvíla sig á bekkjarumhverfinu tímabundið.

Frétt um styrkinn

Skólaslit 6. júní

Skólaslit Oddeyrarskóla verða 6. júní næstkomandi. Nemendur í 1. – 7. bekk mæta í íþróttasal skólans klukkan 9:00 en fylgja síðan umsjónarkennara í stofur og eiga kveðjustund þar.

Skólaslit 8. – 10. bekkjar og útskrift nemenda í 10. bekk verða klukkan 14:30. Nemendum í 10. bekk og aðstandendum þeirra er boðið í kaffi að athöfn lokinni.

Foreldrar og forráðamenn eru velkomnir á skólaslit.

Helga Hauksdóttir fyrrum skólastjóri fær viðurkenningu

Föstudaginn 26. maí hélt Betadeild, Delta, Kappa, Gamma upp á 45 ára afmæli sitt. Á þeim tímamótum var tilefni til að heiðra konu fyrir vel unnin störf að mennta- og/eða menningarmálum. Að þessu sinni varð Helga Hauksdóttir fyrir valinu en hún hefur lagt mikið að mörkum í mennta- og fræðslustörfum og unnið afar óeigingjarnt starf sem kennari, skólastjóri og kennsluráðgjafi erlendra nemenda.

Þegar Helga var skólastjóri í Oddeyrarskóla var þar móttökudeild fyrir nýbúa en árið 2012 var deildin lögð niður og nemendurnir fóru í sína heimaskóla. Helga tók þá við nýju starfi hjá Akureyrarbæ, starfi kennsluráðgjafa erlendra nemenda. Það starf mótaði hún og þróaði áfram af mikilli elju og ástríðu. Hún fór m.a. á milli grunnskóla bæjarins til að kenna nemendum og vinna með kennurunum auk þess að vera í góðu sambandi við fjölskyldur nemenda. Þörfin fyrir ráðgjöf til kennara, námsefni, stuðning við nemendur og kennara, upplýsingar til fjölskyldna um ýmis mál og fleira var mikil. Meðfram þessari vinnu bjó Helga til heimasíðuna erlendir.akmennt.is þar sem hún kom miklu efni þar inn sem hún taldi að gæti nýst öllum aðilum. Frá árinu 2012 hefur erlendum nemendum fjölgað svo um munar í grunnskólum Akureyrar og er brautryðjendastarf Helgu í þessum málaflokki afar mikilvægt og hefur án efa komið öllum til góða. Á myndinni er Aðalheiður Bragadóttir formaður Betadeildar á Akureyri

Við í Oddeyrarskóla óskum Helgu hjartanlega til hamingju með þessa viðurkenningu.