Námskeið fyrir foreldra og forráðamenn

Mánudaginn 15. maí kl. 20.15 verður haldinn fundur í Háskólanum á Akureyri um mikilvægi samvinnu foreldra fyrir velferð barna. Um er að ræða fræðslufund fyrir foreldra og forsjáraðila barna á vegum landssamtakanna Heimilis og skóla fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar og mennta- og barnamálaráðuneytisins. Leitað verður svara við spurningum á borð við: Hvernig get ég sem foreldri lagt mitt að mörkum til að auka vellíðan barnsins míns og skiptir samvinna foreldra máli þegar kemur að farsæld barnanna okkar?

Foreldrar og forsjáraðilar barna í bænum eru hvattir til að mæta á fundinn sem haldinn verður í hátíðarsal Háskólans á Akureyri mánudaginn 15. maí frá kl. 20.15 til 21.30. Fundurinn verður einnig aðgengilegur í streymi fyrir þá sem ekki komast en til að fá link þarf að skrá sig með netfangi.

Mikilvægt er að skrá sig á fundinn.

ANNAÐ SÆTI Í FIÐRINGI

Nemendur Oddeyrarskóla stóðu sig með mikilli prýði í Fiðringi, sem er hæfileikakeppni fyrir 8.-10. bekk á Norðurlandi. Undankeppni fór fram í Laugarborg í síðustu viku og komust nemendur Oddeyrarskóla áfram í úrslitakeppnina sem haldin var í Hofi í gærkvöldi. Atriðið þeirra, Hjálp,  sem þau sömdu sjálf og æfðu undir stjórn Úlfhildar Örnólfsdóttur, lenti í öðru sæti í keppninni. 

Þetta er í annað sinn sem Fiðringur er haldin. Í fyrra voru það einungis skólar á Akureyri sem tóku þátt og urðu nemendur Oddeyrarskóla þá einnig í öðru sæti. 

Útivistardagur í Hlíðarfjalli

Fimmtudaginn 23. mars stefnum við á útivistardag í Hlíðarfjalli með alla nemendur skólans. Dagurinn er gulur, eða skertur skóladagur (15. feb á skóladagatali) svo skóla lýkur um hádegi. Munið eftir hlýjum og góðum klæðnaði, góðu nesti og hjálmum ef krakkarnir eiga slíkan. Annars fá þau hjálm að láni. Við vonum að veðrið verði gott þennan dag og opið í Hlíðarfjalli en ef þarf að aflýsa látum við vita eins fljótt og kostur er. Þá verður hefðbundinn skóladagur þennan dag. Foreldrar fá bréf með nánari upplýsingum.

Árshátíð

Þessa vikuna standa yfir æfngar vegna árshátíðar skólans sem fram fer í vikulokin. Föstudagurinn 27. janúar er tvöfaldur skóladagur en eftir hádegishlé sýna allir árgangar sín atriði fyrir samnemendur og starfsfólk skólans. Á laugardaginn eru síðan leiksýningar fyrir foreldra og forrðáðamenn og aðra nákomna. Frekari upplýsingar um árshátíðana má finna hér í þessu foreldrabréfi. Vert er að minna á glæsilegt kaffihlaðborð foreldrafélagsins á laugardaginn sem verður í boði milli leiksýninga en sýningar verða sem hér segir:

Fyrsta sýning kl. 11:30 1., 5., 9. og 10. bekkur

Önnur sýning kl. 13:00 2., 4., 7. og 10. bekkur

Þriðja sýning kl. 14:30 3., 6., 8. og 10. bekkur

Opin hús og klúbbastarf FÉLAK

Við hjá FÉLAK erum með ýmislegt á prjónunum 

Markmiðið hjá okkur er alltaf að búa til, eða að finna, fjölbreytta og skemmtilega afþreyingu fyrir börnin og við vitum vel að snjalltæki heilla mikið á þessum tímum. Vegna þessa þá ætlum við að reyna að færa þeim verkefni og þrautir sem að vonandi færa þessa skjánotkun á jákvæðari og uppbyggilegri brautir. 

Opin hús og klúbbastarf fara að byrja, ýmsir stórir viðburðir eru einnig á dagskrá þessa önnina, frekari upplýsingar um það verður að sjálfsögðu auglýst, bæði á facebook síðunni okkar og í skólunum.

Umsjón með starfi FÉLAK eru Andri Már Mikaelsson og Hulda Ósk Jónsdóttir
Sérfræðingar í félagsmálum barna

Gleðileg jól

Starfsfólk Oddeyrarskóla óskar nemendum, foreldrum og öðrum velunnurum skólans gleðilegar jólahátíðar og farsældar á komandi ár með þökk fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða.

Skóli hefst að nýju miðvikudaginn 4. janúar 2023 kl. 8:10 eða samkvæmt stundaskrá.