Gleði í Norræna skólahlaupinu

skolahlaupÍ dag tóku allir nemendur Oddeyrarskóla þátt í Norræna skólahlaupinu. Það var góð stemning í hópnum og veðrið gott.

Við byrjuðum á því að ganga á Þórsvöllinn (1,6 km) og á vellinum hlupu krakkarnir frá þremur og upp í átján hringi. Allir stóðu sig mjög vel og vorum við sérstaklega ánægð með að allir tóku þátt og hve krakkarnir voru duglegir að hvetja skólafélaga sína!

Norræna skólahlaupið er í samstarfi við MS og fáum við send viðurkenningarskjöl eftir áramót.

Þetta var frábær dagur og vonandi verðum við svona heppin með veður að ári 🙂

Kær kveðja frá Heimi Erni íþróttakennara og öðrum starfsmönnum Oddeyrarskóla.

Norræna skólahlaupið á föstudaginn

skolahlaupNæstkomandi föstudag, 19. september, taka nemendur Oddeyrarskóla þátt í Norræna skólahlaupinu. Við förum öll saman upp á Þórsvöll og hlaupið þar, mislangt eftir aldri nemenda. Lagt verður af stað á Þórsvöllinn kl. 8:45 og áætluð heimkoma er um kl. 11. Nemendur þurfa að hafa nesti með sér í poka, góða skó til að hlaupa í og vera klædd eftir veðri. Foreldrar eru eins alltaf hjartanlega velkomnir með okkur.

’64 árgangur heimsótti gamla skólann sinn

IMG_3230 IMG_3247Laugardaginn 30. ágúst tók Kristín skólastjóri á móti flottum hópi fólks úr ’64 árgangi sem hafði verið í Oddeyrarskóla á árunum 1970-1980. Það var virkilega gaman að fá þau í heimsókn og heyra lýsingu þeirra á því hvernig umhorfs var í skólanum á þessum árum og hvernig skólastarfinu var háttað. T.d. var hátíðarsalur skólans þá staðsettur á efstu hæðinni og kennslustofur unglinganna á neðsta gangi. Hér eru tvær myndir af hópnum, en þau fagna öll 50 ára afmæli á þessu ári.

Hausthátíð Foreldrafélags Oddeyrarskóla

Frá Foreldrafélagi Oddeyrarskóla

Hausthátíð Foreldrafélags Oddeyrarskóla verður haldin laugardaginn 13. september. Hátíðin hefst með skrúðgöngu kl. 11:00 frá bílastæði sunnan skólans og nú er mál að grípa sér potta og prik og hvað annað sem má nota til að slá taktinn í göngunni.

Að skrúðgöngu lokinni býður Foreldrafélagið upp á grillaðar pylsur og 10.bekkur sér að vanda um leiki á lóðinni. Við hvetjum alla til að mæta og bekkina til að keppa sín á milli í þeim þrautum sem verða settar upp. Einnig verður andlitsmálun í boði frá kl. 10:30.

Bekkirnir hafa hver sinn lit til að merkja sig með í bekkjakeppninni:

1. bekkur – gulur

2. bekkur – rauður

3. bekkur – grænn

4. bekkur – blár

5. bekkur – svartur

6. bekkur – hvítur

7. bekkur – fjólublár

8. bekkur – brúnn

9. bekkur – bleikur

10. bekkur – appelsínugulur

1. bekkur er sérlega boðinn velkominn í skólann!  Mætum öll og eigum glaðan dag.  Endilega lítið við á síðu félagsins á fésbókinni þar sem fréttir af starfi eru birtar og vekja má umræðu um málefni sem tengjast skólastarfinu:

https://www.facebook.com/ForeldrafelagOddeyrarskola

Hátíðin er einnig á fésbókinni og þar má skrá sig og deila viðburðinum:

https://www.facebook.com/events/370306539799422/?context=create&source=49

Með kærri kveðju,

Hannela Matthíasdóttir

formaður Foreldrafélags Oddeyrarskóla.

 

 

Útivistardagur hjá 1. – 4. bekk

Í dag var útivistardagur í Oddeyrarskóla. Yngsta stigið fór saman í Lystigarðinn þar sem þau skemmtu sér konunglega saman. Við fórum í löggu og bófa, stórfiskaleik og rannsóknarleiðangra um garðinn. Virkilega góður dagur að baki 🙂 Myndir eru komnar á myndasíðuna.

IMG_5835 IMG_5807

Fjöruferð hjá 3. og 4. bekk

IMG_2318 IMG_2317Á þriðjudaginn í síðustu viku fóru nemendur í 3. og 4. bekk í fjöruferð í Sílabás í tensgslum við umfjöllun um bókina Gummi fer í fjöruferð eftir Dagbjörtu Ásgeirsdóttur.

Við fengum frábært verður og nutum okkar vel. Myndir eru komnar á myndasíðu skólans.

Leitin að Grenndargralinu 2014

Leitin hefst 12. september.

Að venju er Leitin í boði fyrir nemendur á unglingastigi í grunnskólum Akureyrar. Í ár er Leitin valgrein og er það í annað skipti frá því að fyrsta Leitin fór fram haustið 2008. Þrátt fyrir nýtt fyrirkomulag er Leitin að Grenndargralinu í boði fyrir alla nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar, óháð því hvort þeir völdu hana sem valgrein eða ekki. Allt sem þarf að gera er að hefja leik þegar fyrsta þraut fer í loftið, fara eftir fyrirmælum, leysa þrautina og skila lausnum til umsjónarmanns  með tölvupósti. Fyrir réttar lausnir sendir umsjónarmaður bókstaf til baka sem notaður verður til að mynda lykilorðið. Þetta er endurtekið næstu níu vikurnar eða svo eða þar til kemur að lokavísbendingunni. Þá er Grenndargralið innan seilingar. Einfaldara getur það ekki orðið.

Nánari upplýsingar um Leitina 2014 má nálgast á heimasíðu Grenndargralsins; www.grenndargral.is og á fésbókarsíðu Grenndargralsins.

 

Alþjóðlegur dagur læsis, gildi þess að lesa fyrir börn

books_to_teach_reading_to_kidsÍ dag, 8. september, er haldið upp á alþjóðlegan dag læsis. Af því tilefni gerum við ýmislegt í skólanum sem tengist bókmenntum og lestri. Við áttum hér sameiginlega lestrarstund kl. 9:00-9:15 í morgun. Starfsmenn munu kynna uppáhalds bækurnar sínar, við skrifum öll saman sögur og svo verður getraun á skólasafninu þar sem nemendur giska á úr hvaða bók ákveðin mynd eða tilvitnun er.

Í læsi felst margt, m.a. að öðlast orðaforða og skilja málið. Eitt af því sem foreldrar og kennarar geta gert til að styrkja læsi barna er að lesa fyrir þau, jafnvel þótt þau séu sjálf farin að lesa. Hér á eftir kemur smá lesning með upplýsingum af lestrarvefnum, en hann geymir margar góðar ábendingar varðandi lestur.

Rannsóknir hafa sýnt að lestur fyrir börn hefur áhrif á lestraráhuga þeirra, eflir læsi og leggur grunn að því að börnin njóti þess að lesa sjálf síðar meir.

Lestrarmenning á heimilum hefur mikil áhrif á viðhorf barna til lesturs. Lestrarmenning endurspeglar þau viðhorf sem ríkja á heimilinu til læsis, hversu mikið börn sjá aðra á heimilinu lesa og skrifa og hversu gott aðgengi að lesefni er á heimilinu.

Mikilvægt er að eiga samræður um efni bóka. Þær gefa börnum tækifæri til þess að spyrja og fá svör, segja álit sitt, álykta og gefa hugarfluginu lausan tauminn. Þetta leiðir til dýpri hugsunar barnsins og til aukins skilnings á ýmsum þáttum læsis. Margar rannsóknir hafa leitt í ljós að lestur og samræður um efnið sé aðferð sem eflir orðaforða barna hvað mest.

Orðaforði  skiptir miklu máli fyrir læsi. Gera má ráð fyrir því að barn sem hefur mikinn orðaforða hafi meiri færni til djúpstæðrar hugsunar og eigi auðveldara með tjáskipti en börn með lítinn orðaforða. Börn með mikinn orðaforða eiga þannig auðveldara með að bæta við orðaforða sinn í gefandi lestrar- og samræðustundum. Þess vegna þarf að leggja áherslu á að efla orðaforða barna með lestri og samræðum frá fyrstu tíð.

Hlutverk foreldra í lestrarstund getur verið að stýra samræðum og styðja barnið til að halda samtalinu gangandi; skýra innihald textans, spyrja spurninga um efnið og tengja það við reynslu og aðstæður barnsins. Rannsóknir hafa sýnt að það skiptir máli að lesa oft fyrir börn. Það eykur orðaforða og eflir bernskulæsi. Gæði lestrarstunda skipta einnig miklu máli. Lestrarstund á að vera skemmtileg stund þar sem bæði foreldri og barn njóta þess að lesa og spjalla saman um efnið.

Heimild: lesvefurinn (http://lesvefurinn.hi.is/node/212 )

 

Fyrsta Tengja skólaársins

Nú er ný Tengja komin á heimasíðu skólans undir flipann Tengja. Í Tengjunni má finna fréttir úr skólalífinu og upplýsingar um atburði á næstu vikum.logo -stafalaust