Vísindamenn heimsóttu 3. bekk

IMG_2253 IMG_2251 Í gærmorgun voru nemendur og kennarar í 3. bekk svo heppnir að fá hressa vísindamenn í heimsókn til okkar í skólann. Það voru þau Auður Sigurbjörnsdóttir örverufræðingur og Sean Scully efnafræðingur frá Auðlindadeild Háskólans á Akureyri.

Auður sagði okkur frá ræktun á örverum og sýndi okkur nokkrar tegundir af þeim. Nemendur fengu síðan box með „örverumat“ í og máttu fikta í honum og freista þess að rækta sína eigin örverur. Spennandi að sjá hvað verður í boxinu eftir viku 🙂

Sean sýndi okkur nokkrar efnablöndur sem gefa frá sér mismuandi liti þegar þær komast í snertingu við orku/eld. Það var æsispennadi að sjá litadýrðina sem kom af efnablöndunum og ekki er ólíklegt að einhverjir hafi fundið framtíðarstarf sitt eftir þessa heimsókn.

Fleiri myndir úr heimsókninni má sjá á myndasíðu skólans.

Tengja maímánaðar

Nú er tengja maímánaðar komin í loftið og má lesa hana hér. Eldri tengjur er svo að finna undir tenglinum TENGJA hér fyrir ofan.

SMT sjálfstæðishátíð í Oddeyrarskóla miðvikudaginn 30. apríl

SMT-hátíð -30 apríl 2014nr22 SMT-hátíð -30 apríl 2014nr26 SMT-hátíð -30 apríl 2014nr1 SMT-hátíð -30 apríl 2014nr9Miðvikudaginn 30. apríl öðlaðist Oddeyrarskóli SMT sjálfstæði og í tilefni af því héldum við sjálfstæðishátíð þar sem ýmislegt var til gamans gert. Nokkrir nemendur skólans tróðu upp, við fengum m.a. töframann og uppistand, ljóðalestur, hljóðfæraleik og söng. Nemendur 5. bekk sungu vinalag Oddeyrarskóla og nemendur í 1. og 2. bekk sungu vinalagið (Það er skemmtilegast að leika sér þegar allir eru með). Úrslit úr ljóða- og myndasamkeppni voru kunngjörð. Undir lok hátíðarinnar kom óvæntur gestur, en það var Magni Ásgeirsson sem skemmti okkur með fjörum söng. Gunnar Gíslason fræðslustjóri og Þuríður Sigurðardóttir félagsráðgjafi á skóladeild afhentu  SMT fánann og sjálfstæðisviðurkenninguna og í kjölfarið var nýi SMT fáninn dreginn að húni. Fjörinu lauk síðan með því að allir gæddu sér á grilluðum pylsum. Myndir frá hátíðinni eru væntanlegar á myndasíðu skólans.

Gleðilega páska!

Óskum ykkur öllum gleðilegra páska. Skólastarfið hefst á ný þriðjudaginn 22. apríl. Tengja aprílmánaðar er komin út og má sjá hana hér. Einnig má finna eldri tengjur undir tenglinum Tengja hér fyrir ofan.páskar

Uppskeruhátíð í dag – góður árangur!

Í dag voru allir nemendur skólans kallaðir á sal í tilefni þess að skólinn er að fagna góðum árangri á ýmsum sviðum.

Við fögnuðum frábærum árangri okkar nemenda í skólahreysti sem hömpuðu 3. sætinu, virkilega góðum árangri Oddeyrarskóla í stærðfræðilæsi í síðustu PISA prófum, 3. sætinu í Stóru upplestrarkeppninni og síðast en ekki síst afar vel heppnuðum smiðjudögum sem haldnir voru í þarsíðustu viku.

Í tilefni af þessu var öllum nemendum og starfsfólki boðið upp á vöfflu með ís og ekki laust við að nemendur gleddust 🙂

Myndir eru á myndasíðu skólans.

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar í gær – Ingunn í 3. sæti

Upplestrarkeppni- apríl 2014nr32Í gær, miðvikudag, fór lokahátíð stóru upplestrarkeppninar í sjöunda bekk fram í Menntaskólanum á Akureyri. Fulltrúar Oddeyrarskóla voru þær Ingunn Erla Sigurðardóttir og Berenika Bernat. Þær stóðu sig af stakri prýði. Ingunn varð i í þriðja sæti.

Óskum við henni að sjálfsögðu til hamingju með glæsilegan árangur!

Fágæti og furðuverk – lestrarhvetjandi verkefni

Fágæti og furðuverkÍ dag byrjuðum við með lestrarverkefnið Fágæti og furðuverk í 4. bekk.  Skólinn hefur komið sér upp bekkjarsetti af þematengdum pokum sem innihalda bækur fyrir nemendur, lesefni fyrir foreldra og fylgihluti (dót/mynddiska). Lagt er upp úr því að efnið tengist áhugasviði nemenda og hafa nemendur alltaf val um efni.

Ætlunin er að foreldrar lesi með börnunum heima og skapi þannig jákvæða lestrarfyrirmynd.

Verkefnið stendur yfir í fjórar vikur hjá hverjum hópi. Nemendur fá vikulega nýjan poka með sér heim og vinna með innihald hans í samvinnu við fjölskyldu sína.

Í dag var haldinn fundur með foreldrum nemenda í 4. bekk þar sem hvatinn að verkefninu var kynntur auk þess sem kennarar kynntu skipulagið á verkefninu. Í kjölfarið völdu nemendur sér poka sem þeir fóru með heim í dag og verða með í eina viku.

Jafnframt munu nemendur, kennarar og foreldrar fara saman á Amtsbókasafnið þar sem allir fræðast um safnið og sjáum til þess að allir nemendur sem ekki eiga bókasafnsskírteini fái slíkt.

Blár 2. apríl – alþjóðadagur einhverfunnar

large_autismdayVið ætlum að hafa bláan dag á morgun, miðvikudaginn 2. apríl n.k. í tilefni af alþjóðlegum degi einhverfu. Um heim allan er fólk hvatt til að klæðast bláum fötum þennan ágæta dag til að vekja athygli á málefninu og í ár ætlum við að taka þátt. Því hvetjum við ykkur til að senda börnin bláklædd í skólann á morgun.

Athyglisverðar staðreyndir um einhverfu:

  • 1 af hverju 88 barni fæðist með röskun á einhverfurófi
  • Hjá drengjum eru líkurnar 1 á móti 54 – fimm sinnum meiri en hjá stúlkum
  • einhverfa er fötlun – ekki sjúkdómur (algengur misskilningur) og því ólæknandi
  • Það skiptir sköpum fyrir einhverfa að fá viðeigandi þjálfun eins fljótt og hægt er

Einhverfa er röskun á taugaþroska barna. Röskunin hefur áhrif á félagslega færni, tjáskipti og getur komið fram í áráttukenndri hegðun svo dæmi séu nefnd. Börn með einhverfu skynja veröldina á annan hátt en aðrir og mæta áskorunum á degi hverjum. Með því að vera meðvituð um vanda barnanna getum við haft áhrif á umhverfi þeirra og hjálpað þeim að takast á við hindranir sem okkur sjálfum gætu þótt lítilvægar en geta reynst þeim mikil þraut. Hafa ber í huga að einhverfa er mjög persónubundin og brýst út með ólíkum hætti. Þeir sem greindir eru með röskun á einhverfurófi eru jafn ólíkir og þeir eru margir – alveg eins og við hin.

Fögnum fjölbreytileikanum og mætum í bláu á miðvikudag!

Nánari upplýsingar um einhverfu er að finna á www.einhverfa.is og www.greining.is.

Þeim sem vilja fræða börnin sín um einhverfu er jafnframt bent á skemmtilegt YouTube myndband eftir Jóhönnu Ýr Jónsdóttur sem kallast „Introvert“ sem ætlað er að útskýra einhverfu á einfaldan hátt. Hægt er að nálgast myndbandið á eftirfaraandi vefslóð: http://www.youtube.com/watch?v=ZFjsW2bozmM

Sköpunargleði í Frístund

IMG_3081Að fyrri smiðjudegi sem helgaður var tónlist loknum ákváðu nokkrir krakkar í 1. – 4. bekk upp á eigin spýtur að setja saman „dýrahljómsveit.“ Þarna voru saman komin kanína, köttur, rottur, refur og meira að segja varúlfur. Þeir sem að uppátækinu stóðu eru Elsa, Dagbjört, Móna, Ebba, Íris, Sesselja, Hanna Lára og Einar Kristinn. Á myndasíðunni má sjá fleiri myndir.