Mánudaga 19:30-21:30 í Tróju.
- Þriðjudaga 19:30-21:30 í Naustaskóla.
- Miðvikudaga 19:30-21:30 í Tróju.
- Alla fimmtudaga er opið eingöngu fyrir 7. bekkinga í Tróju.
- Á fimmtudagskvöldum er klúbbakvöld (stelpu- og strákaklúbbar) frá klukkan 19:30 til 21:30.
- Engin sérstök dagopnun er í gangi en unglingar eru alltaf velkomnir í Tróju svo framalega sem starfsmaður er á svæðinu.
- Fyrsta miðvikudag í mánuði er opnun fyrir 5.-7. bekk í Tróju og annan miðvikudag í mánuði fyrir sama aldurshóp í Naustaskóla.
Category Archives: Fréttir og tilkynningar
Frammistöðumat og skráning viðtalstíma
Opnað hefur verið fyrir frammistöðumat í Mentor þar sem nemendur meta valda þætti í skólastarfinu með aðstoð foreldra. Ljúka þarf við matið í síðasta lagi fimmtudaginn 27. febrúar. Kennarar vinna síðan úr því föstudaginn 28. febrúar. Foreldrar þurfa einnig að velja sér tíma fyrir foreldraviðtöl sem verða mánudaginn 3. og þriðjudaginn 4. mars. Vinsamlegast skráið tíma á Mentor fyrir fimmtudaginn 27. febrúar.
Oddeyrarskólapeysur – seinni pöntunardagur í dag!
Í dag er seinni pöntunardagur á hettupeysum merkum skólanum,
Peysurnar munu kosta 4.500.- og verður hægt að máta og borga fyrir þær í dag (síðasti séns) kl. 16-17:30 (ath. breyttur tími) í skólanum í stofu 101 – Stapa. Gengið er inn að vestan hjá íþróttahúsinu. Nauðsynlegt er að greiða fyrir peysurnar um leið og þær eru pantaðar. Peysurnar eru í barnastærðum frá 7-13 ára og svo fullorðinsstærðum S, M, L, XL, og 2XL. Fimm litir verða í boði í hvorum stærðarflokki.
Febrúartengjan – fréttabréf Oddeyrarskóla
Nú er komin ný Febrúartengja stútfull af ýmsum upplýsingum um skólastarfið. Við hvetjum foreldra og nemendur til að lesa hana gaumgæfilega 🙂
Tengjuna má finna undir flipanum Tengja hér fyrir ofan.
Snillingarnir – þjálfun í samskiptum, tilfinningastjórn og athygli barna með ADHD
Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar býður börnum með ADHD að taka þátt í námskeiði til að efla færni á ýmsum sviðum. Námskeiðið er fyrir börn fædd árið 2004 og 2005 og eru 6 börn í hverjum hóp. Áhersla er lögð á að auka færni barna í félagslegum samskiptum, skapstillingu, sjálfsstjórn og að bæta athyglisgetu þeirra. Hópurinn hittist tvisvar í viku 2 tíma í senn, í 5 vikur (10 skipti alls) með tveimur þjálfurum. Eftirfarandi þættir eru teknir fyrir með börnunum í litlum hópum:
Tilfinninga- og reiðistjórnun: Börnunum eru kenndar ýmsar aðferðir við að stilla tilfinningar sínar þegar það er ekki viðeigandi að sýna þær, m.a. reiðistjórnun í samskiptum. Þar að auki læra þau um tilfinningar, svipbrigði og áhrif aðstæðna á líðan þeirra og annarra. Sú þekking mun nýtast þeim í samskiptum við aðra.
Félagsfærni: Farið er yfir atriði eins og hvernig og hvenær er viðeigandi að hefja samskipti við aðra, samskiptareglur og aukna færni í að setja sig í spor annarra.
Sjálfsstjórn: Kenndar eru aðferðir sem nýtast við að hamla hvatvísi og auka stjórn á eigin hegðun.
Þrautalausnir: Farið er yfir aðferðir við að leysa ýmis vandamál sem upp koma á skynsamlegan hátt. Í því felst að finna valmöguleika í stöðunni, hugsa um mögulega útkomu hvers valmöguleika og velja bestu lausnina til að ná ákveðnu markmiði.
Athyglisþjálfun: Í hverjum tíma eyðir hvert barn u.þ.b. 20 mínútum í tölvuforriti sem er ætlað að auka athyglisgetu, vinnsluminni og vinnsluhraða.
Þjálfarar á námskeiðinu verða Helga Vilhjálmsdóttir og Guðný Dóra Einarsdóttir sálfræðingar við Sérfræðiþjónustu skóla á Fjölskyldudeild.
Námskeiðið verður 10. mars–9. apríl, 2014 á mánudögum og miðvikudögum kl. 16:15-18:15, 10 skipti alls.
Til að sækja um Snillinganámskeiðið vinsamlegast sendið umsókn á þar til gerðu umsóknarblaði og sendið á Fjölskyldudeild fyrir 24. febrúar. Umsóknarblað geta forráðamenn fengið hjá skóla eða á Fjölskyldudeild. Nánari upplýsingar hjá Helgu Vilhjálmsdóttur og Guðnýju Dóru Einarsdóttur í síma 460-1420 eða með tölvupósti á helgav@akureyri.is eða gudnydora@akureyri.is
Þátttökugjald: kr. 7.000 fyrir námskeiðið
Hettupeysur
Nú ætlar nemendaráð Oddeyrarskóla að bjóða aftur upp á hettupeysur eins og seldar voru fyrir nemendur og starfsfólk fyrir áramót. Peysurnar munu kosta 4.500.- og verður hægt að máta og borga fyrir þær í næstu viku, þriðjudaginn 18. og fimmtudaginn 20. febr. kl. 16-18 í skólanum í stofu 101 (Stapi). Gengið inn að vestan hjá íþróttahúsinu. Það verða eingöngu pantaðar greiddar peysur (ekki er tekið við greiðslukortum). Peysurnar verða í barnastærðum frá 7-13 ára og svo fullorðinsstærðum S, M, L, XL, og 2XL. Fimm litir verða í boði í hvorum stærðarflokki.
Nánar um liti og stærðir í meðf. viðhengi:
Vel heppnaður útivistardagur í Hlíðarfjalli
Í dag var útivistardagur hjá okkur í Oddeyrarskóla. Við fórum öll upp í Hlíðarfjall ýmist á gönguskíði, svigskíði eða bretti og virtust allir ánægðir með daginn.
Þeir nemendur sem ekki eiga skíða- eða brettabúnað gátu fengið hann lánaðan í Hlíðarfjalli og var undirbúningur starfsmanna Hlíðarfjalls til fyrirmyndar eins og alltaf. Því gekk ótrúlega vel að koma öllum í skó og skíði til að fara að renna sér í brekkunum. Veðrið var gott þrátt fyrir örlitla snjókomu en færið var frábært. Brekkurnar voru vel troðnar svo allir gátu sýnt sína bestu takta 🙂
Nemendur 3. og 4. bekkjar fengu skíðakennslu í boði Skíðafélags Akureyrar og Hlíðarfjalls fyrr í vetur og mátti sjá árangurinn af þeirri kennslu í dag.
Við þökkum starfsmönnum Hlíðarfjalls og Skóladeild Akureyrar kærlega fyrir frábæran dag!
Myndir eru komnar á myndasíðu skólans.
Dagur stærðfræðinnar
Í dag 7. febrúar er Dagur stærðfræðinnar. Markmið með deginum er tvíþætt; að vekja nemendur og sem flesta aðra til umhugsunar um stærðfræði og hlutverk hennar í samfélaginu og einnig að fá nemendur til að koma auga á möguleika stærðfræðinnar og sjái hana í víðara samhengi. Af þessu tilefni tóku allir á yngsta stiginu þátt í skemmtilegum stærðfræðiverkefnum í ýmsum myndum, fóru m.a. í bingó, Yatzy, spiluðu alls kyns spil og fleira. Myndir frá deginum má sjá á myndasíðu skólans.
Skólahreysti Oddeyrarskóla
Skólahreysti Oddeyrarskóla var haldin í dag í íþróttasal skólans. Keppnin tókst afar vel og var mikið fjör. Þátttakendur voru nemendur á unglingastigi. Hjá stelpunum voru það Ágústa Jenný 8.b. sem var hlutskörpust í hraðabrautinni og Birta 8.b. í armbeygjum og hreystigreip. Þær munu taka þátt í æfingum fyrir Skólahreysti ásamt varamanni sem verður Tara 10.b.
Hjá strákunum voru valdir til æfinga 4 strákar sem voru mjög jafnir, þeir Don og Egill í 9.b. og Alexander Ívan í 10.b. í hraðabraut. Alexander Ívan og Hrannar 10.b. voru hlutskarpastir í dýfingum/upphýfingum.
Síðar verður ákveðið hverjir af þessum nemendum munu keppa fyrir hönd Oddeyrarskóla í lokakeppninni sem haldin verður í mars. Til hamingju krakkar!
Myndir eru væntanlegar á myndasíðu skólans.