Skiladagur fyrir valgreinar næsta vetur var í dag. Ef eitthvað þarf að skoða nánar er bæklingur hér!
Author Archive: Maggi
Innanhússþing kennara um samræður í kennslu
Síðastliðinn föstudag var starfsdagur hjá kennurum Oddeyrarskóla. Sá dagur var vel nýttur þar sem haldið var innanhússþing um samræður í kennslu í tengslum við þróunarverkefnið okkar Tölum saman – lærum saman. Skólinn hlaut styrk úr Sprotasjóði til að fá til liðs við sig þau Hafþór Guðjónsson dósent við Menntavísindasvið HÍ og Brynhildi Sigurðardóttur skólastjóra í Garðaskóla, en þau hafa bæði mikla þekkingu og reynslu af því að nota samræður í skólastarfi. Brynhildur og Hafþór komu bæði á innanhússþingið, þar sem kennarar voru með innlegg um það sem þeir hafa verið að gera í vetur. Kennarar kynntu m.a. hvernig samræður eru notaðar við að leysa klípusögur, stærðfræðiverkefni, náttúrufræðiverkefni og fleira. Fjallað var um nemendaþingið og hvernig það hjálpaði nemendum að hafa lært ýmsar samræðureglur þegar þeir undirbjuggu smiðjudagana. Kennarar skólans hafa verið duglegir að prófa ýmsar leiðir við samræður í skólastofunni og eru með tímanum að ná æ betri tökum á aðferðinni.
Seinni hluta dagsins voru smiðjur hjá Brynhildi og Hafþóri þar sem kennarar annars vegar æfðu samræðuaðferðir og hins vegar ræddu verkefnið og hvernig þeir sjái fyrir sér framhaldið.
Nemendaþing haldið til að undirbúa smiðjudaga
Þriðjudaginn 12. apríl var haldið nemendaþing í Oddeyrarskóla. Tilgangur þess var að fá nemendur til að skiptast á skoðunum um það hvað þau vilja taka sér fyrir hendur á smiðjudögum 19. og 20.apríl. Nemendum skólans var skipt í 18 hópa, þvert á alla bekki. Þessir hópar koma til með að vinna saman á smiðjudögunum. Þema smiðjudaganna er fjölmenning og á það mjög vel við hjá okkur í Oddeyrarskóla, þar sem nemendur skólans eru af mörgum þjóðernum.
Hver hópur ræddi hugmyndir að verkefnum sem upp höfðu komið og völdu sér síðan þau verkefni sem þau höfðu áhuga á. Þetta var kjörið tækifæri til að æfa samræðu og samræðureglur, þar sem skólinn vinnur nú þróunarverkefni um samræður í námi. Á sama tíma er nemendalýðræðið virkt.
Þingið gekk mjög vel og sköpuðust góðar og skemmtilegar umræður í hópunum. Krakkarnir voru ánægðir að hafa áhrif á það sem þau koma til með að vinna og gerir þetta spennuna fyrir smiðjudögum jafnvel enn meiri. Elstu nemendurnir héldu utanum hópaumræðuna og voru kennarar þeim til stuðnings.
Óvissuferð í Háskólann – umbun í 100 miða leik
Í dag fóru 11 nemendur með fulltrúum úr SMT stýrihópi í heimsókn í HA. Ferðin sem var óvissuferð var umbun í 100 miða leiknum sem haldinn var síðustu tvær vikurnar fyrir páska.
Við fórum í Borgir, þar sem Auður og Sean sýndu okkur rannsóknarstofur og gerðu nokkrar tilraunir. Krakkarnir bjuggu til slím sem þeir tóku með sér heim. Eftir heimsóknina í borgir var farið í mötuneyti HA og fengum kakó og kökur.
Úrslit í 100 miða leik
100 miða leiknum okkar lauk fyrir páska, en úrslit voru kunngjörð nemendum í síðustu viku. Það er alltaf algjör tilviljun hvaða nemendur eru dregnir út svo líta má á þetta sem leik og happdrætti.
Þeir sem voru dregnir út að þessu sinni eru eftirfarandi nemendur:
- Rúdolf Helgi, 5. bekk
- Ari, 2. bekk
- Elsa, 3. bekk
- Daníel, 1. bekk
- Úrsúla, 7. bekk
- Telma Sif, 1. bekk
- Birta, 10. bekk
- Ágúst, 8. bekk
- Sara Rún, 4. bekk
- Sóley, 7. bekk
Við óskum þessum krökkum til hamingju með sigurinn!
Farið verður í óvissuferð með SMT stýrihópi þriðjudaginn 12. apríl. Lagt verður af stað í upphafi skóladags og stefnt að heimkomu upp úr kl. 10.
Góðverkavika í Oddeyrarskóla
Þessa vikuna er góðverkavika í Oddeyrarskóla og eru nemendur mjög duglegir að vinna ýmiskonar góðverk. Nemendur í 10. bekk fóru um hverfið og sópuðu stéttir íbúanna, nemendur á miðstigi fóru í fyrirtæki á svæðinu og færðu starfsfólkinu nýbakaða snúða sem krakkarnir í 9. bekk höfðu bakað. 9. bekkurinn fór á Hlíð og spilaði við vistmennina. Nemendur og starfsfólk skólans eru jafnframt að prjóna húfur o.fl. til að geta gefið til Rauða krossins.
Góðverkavika – fréttir af 2. og 3. bekk
Við í 2. og 3. bekk höfum tekið þátt í góðverkarviku Oddeyrarskóla og brallað ýmislegt. Við útbjuggum falleg blóm og orðsendingar sem krakkarnir hlupu svo með út um alla Eyrina og stungu inn í bréfalúgur. Í dag fórum við upp í Rauða krossinn með föt og dót sem krakkarnir komu með að heiman. Þegar starfsfólk Rauða krossins spurði hvað þau væru að gera í góðverkaviku svöruðu þau öll að bragði, við erum að gleðja aðra.
Fulltrúar Oddeyrarskóla í stóru upplestrarkeppninni valdir í dag
Undanfarna mánuði hafa nemendur í 7. bekk Oddeyrarskóla verið að æfa fallegan og góðan upplestur. Í dag fengum við að hlusta á þessa flottu krakka flytja okkur texta og ljóð. Allir nemendur sýndu miklar framfarir á tímabilinu og margir sigrar voru unnir.
Dómnefnd skipuðu að vanda þau Helga Hauksdóttir, Þórarinn Torfason og Fjóla Kristín Helgadóttir. Verkefni þeirra var ekki öfundsvert, enda margir frambærilegir upplesarar á ferð.
Tveir fulltrúar munu fara í lokakeppnina sem haldin verður 6. apríl n.k. og eru það þær Lára Huld Jónsdóttir og Bryndís Þóra Björnsdóttir. Varamaður er Vala Alvilde Berg. Við óskum þessum flottu fulltrúum okkar innilega til hamingju með árangurinn og óskum þeim góðs gengis í lokakeppninni.