5. bekkur í Hrísey

5. bekkur Hrísey 5. bekkur Hrísey 25. bekkur Hrísey 3
5. bekkur Hrísey 4Laugardaginn 28. maí fórum við krakkarnir í 5. bekk ásamt foreldrum okkar í blíðskaparveðri í skemmtiferð út í Hrísey. Við fórum í taxaferð um eyjuna, borðuðum saman á veitingahúsinu og nýttum svo það sem eftir var dags í sólbað, sund og slúður. Einstaklega skemmtileg og vel lukkuð ferð með frábæru fólki 🙂

Óvissuferð hjá 2. og 3. bekk

Krakkarnir í 2. og 3. bekk tóku lestraráskorun frá kennurunum sínum og lásu yfir 7000 mínútur á fjórum vikum!20160527_092308 óvissuferð 131 óvissuferð 124 óvissuferð 094 óvissuferð 087

Af því tilefni var farið í óvissuferð föstudaginn 27. maí til að gleðjast yfir frábærum árangri.

Við byrjuðum á því að fara með strætó upp á brekku en gengum síðan upp í Breiðholt (hesthúsahverfið fyrir ofan bæinn) og kíktum í fjárhúsið til Magnþórs sem vinnur í skólanum okkar. Síðan fundum við okkur þokkalegt skjól til að borða nestið og héldum síðan heim á leið. Þegar við komum í skólann grilluðum við okkur pylsur.

 

ÁBYRGÐ – VIRÐING – VINÁTTA, einkunnarorð skólans á ýmsum þjóðtungum

Á smiðjudögum sem haldnir voru í apríl var unnið með fjölmenningu. Eitt af verkefnum þessara daga var að búa til spjöld með einkunnarorðum skólans, ábyrgð – virðing – vinátta, á þeim þjóðtungum sem nemendur skólans tala. Hér má sjá nokkur veggspjöld sem finna má á veggjum skólans. Nú getur hver og einn reynt að átta sig á hvaða þjóðtungur þetta eru.FullSizeRender3 FullSizeRender2 FullSizeRender1 FullSizeRender4

1970 árgangurinn heimsækir skólann

1970 árgangurUm þessar mundir eru 30 ár síðan árgangur fæddur 1970 lauk grunnskólagöngu sinni hér í Oddeyrarskóla, þ.e. árið 1986. Af því tilefni hittist stór hluti hópsins um helgina og einn þáttur í dagskránni var að kíkja í heimsókn í gamla skólann. Kristín skólastjóri tók á móti hópnum, sýndi þeim skólann og skemmti sér yfir sögum úr skólagöngu þeirra.

Það var virkilega ánægjulegt að fá hópinn í heimsókn og vonandi þótti þeim gaman að fá innsýn í gamla skólann sinn 🙂

Sumarlestur – Akureyri, bærinn minn

Skráningarupplýsingar til foreldraSumarnámskeiðið Sumarlestur – Akureyri bærinn minn er haldið í júní ár hvert og verður svo einnig á komandi sumri og verður það 16. skiptið. Að námskeiðinu standa Amtsbókasafnið og Minjasafnið á Akureyri í samstarfi við aðrar menningarstofnanir bæjarins. Námskeiðin eru 7.-10.júní, 13-16.júní og 20.-23.júní (4 daga námskeið).

Sumarlestur er lestrarhvetjandi námskeið fyrir börn í 3. og 4. bekk, með áherslu á menningu og sögu Akureyrar. Rauði þráður námskeiðsins er lestur. Þá er bæði átt við bóklestur en einnig læsi á umhverfið. Lesið verður í minjar og sögu, list og náttúru. Þannig er lesið í lífið og tilveruna alla námskeiðsdagana og jafnvel lengur því vonandi fylgir börnunum áfram sú meðvitund sem vaknar varðandi umhverfi þeirra og sögu.

Undir leiðsögn safnfræðslufulltrúa kynnast börnin starfsemi Amtsbókasafnsins, Minjasafnsins og annarra menningarstofnanna. Börnin kynnast starfseminni sem þarna fer fram í samhengi við markmið námskeiðisins.

Á meðfylgjandi mynd er auglýsing námskeiðsins og upplýsingar varðandi skráningu.

Skráning hefst miðvikudaginn 25.maí. 

Sé frekari upplýsinga óskað má hafa samband við safnfræðslufulltrúa Minjasafnsins á Akureyri

Ragna Gestsdóttir á Minjasafninu á Akureyri á netfanginu ragna@minjasafnid.is

Orka og umhverfi – þemavinna á miðstigi

ferlar1Dagana 17.-31. maí eru nemendur á miðstigi að vinna fjölbreytt og skemmtileg verkefni sem tengjast orku og umhverfi. Helstu áhersluþættir eru vatn, raforka, jarðvarmi og eldsneyti. Unnin verða ýmiskonar verkefni, s.s. tölfræðikannanir, kynningar og fleira.

Farið verður í heimsóknir í Norðurorku, Vistorku, á Náttúrufræðistofnun og í auðlindadeild Háskólans á Akureyri og vinna nemendur verkefni tengdum þeim heimsóknum. Að sjálfsögðu nýtum við okkur Google classroom til að halda utan um verkefnin, en nemendur safna öllum verkefnum tengdum þemavinnunni á svæðið og skila þeim í heild. Áhersla er lögð á að nemendur hafi nokkuð frjálsar hendur við úrvinnslu á verkefnum svo það verður virkilega spennandi að sjá afraksturinn.

Vorsýning í stærðfræði hjá 10. bekk

46Nemendur í 10. bekk hafa að undanförnu verið að vinna að stórum raunhæfum verkefnum í stærðfræði. Í dag buðu þeir foreldrum, nemendum og starfsfólki skólans á vorsýningu þar sem þeir kynntu afraksturinn.

Krakkarnir höfu frjálsar hendur um viðfangsefni og framsetningu og var ánægjulegt að sjá ólíkar útfærslur nemenda. Meðal annars mátti sjá niðurstöður kannanna, tölfræðiútreikninga og úthugsaðar viðskiptahugmyndir sem kannski munu líta dagsins ljós einhvern daginn.

 

 

 

Fræðslufundur kennara og stuðningsfulltrúa

Ut fræðsla Kennarar Oddeyrarskóla hafa verið mjög duglegir að þróa kennslu sína með notkun upplýsingatækninnar. Áhersla okkar undanfarin tvö ár hefur verið á umhverfi sem kallast Google for education og hefur þetta umhverfi nýst okkur afar vel í námi og starfi.

Í dag fengum við á fund okkar þær Margréti og Helenu, kennara úr Brekkuskóla, sem einnig hafa lagt mikla stund á upplýsingatækni í skólastarfi. Með þeim komu fjórir galvaskir nemendur sem miðluðu reynslu sinni af rafrænu námi í Brekkuskóla.

Það var virkilega gott og gagnlegt að fá þau öll í heimsókn og kunnum við þeim okkar bestu þakkir fyrir komuna og vonum að samstarf okkar um rafræna kennsluhætti sé bara rétt að byrja 🙂

Smiðjudagar tileinkaðir fjölmenningu

IMG_0010 IMG_5750Dagana 19. og 20. mars voru smiðjudagar tileinkaðir fjölmenningu haldnir í Oddeyrarskóla.

Í Oddeyrarskóla er fjölmenningarlegt samfélag og því fögnum við. Við erum af mörgum þjóðernum og er því mikilvægt að kynnast ólíkum löndum og menningu þeirra.

Nemendur nýttu nemendaþing í vikunni á undan til að ræða möguleg viðfangsefni og velja sér stöðvar til að sækja á smiðjudögum, en stöðvarnar voru af ýmsu tagi. Nemendur voru í 10 manna hópum, sem voru samsettir þvert á árganga. Þannig var líklegt að í hverjum hópi væru nemendur frá 1.-10. bekk.

Hver hópur sótti fjórar stöðvar. Margir nemendur völdu sér að kynnast mat og matarmenningu mismunandi landa. Einhverjir föndruðu þjóðfána, lærðu um ólík tungumál og letur, gerðu grímur eða kynntu sér dýralíf ólíkra landa. Eins fóru sumir hóparnir í leiki frá ólíkum löndum, fóru í ratleik, dönsuðu þjóðdansa eða horfðu á landsleiki milli landanna sem um ræddi. Einhverjir nemendur nýttu sér upplýsingatæknina og bjuggu til Kahoot verkefni um löndin eða gerðu stuttmyndir. Þá lærðu sumir nemendur að segja fyrstu 10 tölurnar á fjölmörgum tungumálum.

Dagarnir heppnuðust einstaklega vel. Nemendur voru jákvæðir og duglegir við verkefni sín og athafnir og var gleðin var við völd.

Sérstakt hrós fá eldri nemendur skólans, sem stóðu sig eins og alltaf einstaklega vel við að annast yngri nemendur og gera þeim þannig kleift að njóta daganna enn betur en ella.